Hertha, sem kom öllum á óvart í fyrra og barðist um titilinn til síðasta blóðdropa, þvert á allar spár spekinga, hefur byrjað tímabilið mjög illa og er einungis með þrjú stig eftir fjórar umferðir. Eilífðarlúserarnir í Schalke hafa með Magath-legu hjakki náð að hala inn sjö stigum í jafnmörgum umferðum. Í liðum Schalke og Herthu eru einfaldlega ekki leikmenn í þeim klassa sem þarf til að keppa um hæstu orðu þýskrar knattspyrnu. En að því sögðu, þá má ekki gleyma að liðin eru þjálfuð af þeim Felix Magath og Lucien Favre, báðir þekktir fyrir mjög skipulagðan leik og mikinn aga, klæðskerasaumaður stíll fyrir lið skipuð óæðri leikmönnum.
En þessi pistill átti ekki að vera um Schalke og Herthu heldur Werder Bremen.

En tímabilið í fyrra var æði skrautlegt hjá Bremen og Schaaf áreiðanlega með óbragð í munninum þegar hann hugsar um þennan skitsófreníska vetur
Í áraraðir, jafnvel í áratugi, hefur ekki nokkur leikmaður Bremen sýnt jafngóða takta og Diego sýndi í fyrra. Hann var hreint út sagt stórkostlegur, skoraði 20 mörk í 28 deildarleikjum og lagði upp dobíu af mörkum. Þrátt fyrir heimsklassa spilamennsku Diego hafnaði liðið í tíunda sæti í. Slökum varnarleik var helst um að kenna.
Að komast í úrslit UEFA bikarsins voru kannski sárabætur þrátt fyrir tap á móti Shakhtar Donetsk og sigur Bremen á Leverkusen í þýska bikarnum fékk Schaaf til að brosa, nokkuð sem gerist afar sjaldan.
En nú er Diego farinn til Juventus fyrir stóra upphæð (eini stóri leikmaðurinn sem yfirgaf deildina í sumar, straumurinn hefur verið í hina áttina) og eins góður og hann var fyrir Bremen, er engin ástæða til að örvænta.
Thomas Schaaf hefur eflaust vitað að Bremen kæmist yfir brotthvarf Diego nokkuð léttilega, svo sterkur er leikmannahópurinn og þeir leikmenn sem bættust við í sumar gera gott lið ennþá betra.
Tvær björtustu vonir þýska landsliðsins eru á mála hjá Bremen, þeir Mesut Özil og Marko Marin. Özil sýndi í fyrra að hann getur vel tekið við hlutverki Diego sem Spielmacher og Marin, hinn þýski Messi, er öskufljótur útherji sem kom frá Mönchengladbach í sumar. Joachim Löv hefur kallað þá báða í landsliðið og verða þeir án efa í hópnum á HM næsta sumar.
Schaaf tók Tim Borowski aftur opnum örmum, en hann fann sig ekki hjá Bayern þetta eina tímabil og er kominn aftur heim.
Athyglisverður leikmaður sem Schaaf fékk í sumar er Bólivíumaðurinn Marcelo Moreno sem kom á árs lánssamningi frá Shakhtar Donetsk. Áður en hann fluttist til Úkraínu, þar sem hann floppaði illilega, skoraði hann eins og óður maður í Bólivíu og Brasilíu og hefur skorað reglulega fyrir landsliðið.
Þá er ótalinn Claudio Pizzaro sem ákvað í sumar að skrifa undir langtímasamning við Bremen eftir að hafa verið á láni frá Chelsea í fyrra. Pizzaro sýndi það rækilega á síðasta tímabili að hann er framherji í háum gæðaflokko með því að skora 28 mörk í 47 leikjum.

Vafalaust hefur Schaaf haldið að síðasta tímabili væri ekki lokið þegar Bremen, strax í fyrsta leik tímabilsins, tapaði heima gegn fallkandídötunum í Eintracht Frankfurt. Eins niðurlægjandi og það var, þá náði Bremen strax í næsta leik með samblandi af öflugum varnarleik (vörnin var Akkilesarhæll Bremen í fyrra) og skelfilegum leik Bæjara 1-1 jafntefli í Munchen. Í þriðju umferð fékk Bremen Mönchengladbach í heimsókn og slátruðu þeim með þremur mörkum gegn engu. Um síðustu helgi var komið að öðrum erfiðum útileik á móti Herthu. Ólympíleikvangurinn í Berlín var eitt mesta virki deildarinnar í fyrra þar sem Hertha marði hvern sigurinn á fætur öðrum. Bremen náði hinsvegar að sigra Prússana 3-2 eftir að hafa komist í 2-0. Enn er vörnin grunsamleg. Liðið er sem stendur í 3. sæti með sjö stig, þremur á eftir Wolfsburg og Leverkusen.
Eins og ráð var fyrir gert hefur Özil verið allt í öllu og skorað þrjú mörk í leikjunum fjórum.
Í næstu umferð fá þeir grannana í Hannover í heimsókn sem verður að bókast fyrirfram sem sigur og þvínæst á Bremen erfiðan útileik við Leverkusen.
Það er spádómur síðunnar að helsti keppinautur Bæjara um skjöldinn verði Werder Bremen og það sem af er tímabili, virðist sá spádómur geta gengið eftir.
Áður var þess getið að fleiri lið gætu blandað sér í toppbaráttuna og af þeim eru Sváfarnir í Stuttgart ansi líklegir til afreka. Mun næsti pistill fjalla um VFB Stuttgart.
Yndislegt tímamótablogg um æðislegustu deild í heimi.
ReplyDeleteHef ekki trú á að Bremen í titil slagnum... Hamburger verða sterkir og svo er Magath til alls vís með Schalke... Ekki gleyma Hoffenheim..
Kveðja Tarfurinn