Eftir arfaslakt og niðurlægjandi tímabil í fyrra átti nýbyrjuð sparkvertíð að marka tímamót hjá Bayern Munchen. Klinsmann var sparkað síðasta vor, þegar nokkrir leikir voru eftir og gamla brýnið Jupp Heynckes munstraður sem stjóri til að forðast meiri niðurlægingu þá leiki sem eftir voru og tryggja meistaradeildarsæti.
Ráðning Klinsmann var umdeild frá fyrsta degi og í raun hálf óskiljanlegt hvers vegna hann var ráðinn. Fyrir það fyrsta höfðu Klinsmann og Uli Hoeneß deilt ákaft meðan Klinsmann var landsliðsþjálfari um markvarðastöðu liðsins. Klinsmann gerði hið ófyrirgefanlega, setti Oliver Kahn á bekkinn í stað Jens Lehmann. Hoeneß varð óður, sem og öll Bayern mafían. En Klinsmann varð ekki haggað. Ekki bætti úr skák að Klinsmann var búsettur í Kalíforníu allan tímann sem hann var landsliðsþjálfari. Bayern mafíunni þótti það í besta falli hlægilegt.
Fljótlega kom í ljós að þjálfunaraðferðir og öll nálgun Klinsmann væru ekki í anda Bayern sem er félag reist á íhaldssömum bæverskum gildum. Uppfullur af allskyns nýaldarhugmyndum frá Kalíforníu mætti Klinsmann til Munchen með her amerískra íþróttasálfræðinga og næringafræðinga, sem út af fyrir sig hefði verið í lagi. En Búddalíkneski á æfingasvæðinu og jógatímar runnu ekki eins ljúft ofan í mannskapinn. Gilti það jafnt um leikmenn sem og gömlu mennina sem öllu ráða.
Hefði liðinu gengið vel þá hefðu menn látið sig hafa nokkrar lótusstellingar og hráfæðisbuffet. En strax í september hafði Werder Bremen slátrað Bayern 5-2 og það á Allianz og eftir sex fyrstu umferðirnar hafði Bayern einungis hesthúsað tveim sigrum. Þegar leið á tímabilið kjöldróg Barcelona Bæjara í fjórðungsúrslitum meistardeildarinnar og stuttu síðar gjörsigruðu meistaraefnin frá Wolfsburg þá 5-1 sem er stærsta tap liðsins í áraraðir. Eftir tap gegn Schalke, var Klinsmann rekinn.
Þessir tíu mánuðir með Klinsmann eru nokkurskonar lost weekend í sögu Bayern.
Í sumar var því tekinn u-beygja. Horfið frá þessu nútímarugli og Bayern skyldi verða Bayern á nýjan leik. Louis van Gaal var ráðinn, gamaldags harðstjóri og taktískur meistari. Van Gaal er þrjóskur skaphundur og allan sinn feril hefur honum ítrekað lent upp á kant við fjölmiðla. Þess var ekki lengi að bíða að hann ryki út af fyrsta blaðamannafundinum sínum en það gerðist strax í annarri umferð. Bæjarar eru reyndar vanir skrautlegum blaðamannafundum.
Helsta markmið Bæjara í sumar var að halda Franck Ribery en Real Madrid hefur verið að míga utan í hann. Þetta virðist hafa tekist enda setti Hoeneß gríðarlega háan verðmiða á leikmanninn. Einnig þurfti að laga augljósa veikleika á liðinu sem liggja helst í vörn og á miðju. Frá því Ballack fór hefur liðinu sárlega vantað klassa miðjumann, þó með sanni megi segja að skarð Stefan Effenberg hafi aldrei verið fyllt, ekki einu sinni af Ballack. Þá er það skömm að Michael Rensing skuli klæðast treyju númer 1, treyju sem áður klæddi Sepp Maier og Oliver Kahn.
Að framansögðu undrast margir ráðstafanir Hoeneß. Varnartengiliðurinn Anatoliy Tymoshchuk fékkst á Bosman sölu. Tymoshchuk er gríðarlegt gerpimenni frá Úkraínu. En á miðjunni er fyrir fanturinn og fyrirliðinn Mark van Bommel og ekki líklegt til afreka að hafa þá báða þar að ofsækja andstæðinginn. Bayern vantar semsagt leikstjórnanda af sauðahúsi Effenberg. Þá var Lucio seldur til Inter og mun það veikja vörn liðsins umtalsvert. Mario Gomez var keyptur á metfé frá Stuttgart. Virkilega góður framherji en óljóst hvað Bayern ætlar að gera við enn einn trukkinn frammi, en fyrir eru Luca Toni, Miroslav Klose og Ivica Olic. Þegar ljóst var að Stuttgart var tilbúið að selja Gomez í sumar, panikkaði Hoeneß og ákvað að kaupa hann áður en einhver annar myndi gera það.
Það sem af er tímabilinu hafa Bæjarar verið arfaslakir. Spilið verið hugmyndasnautt og því hefur verið hvíslað að leikmenn viti ekki hvaða leikerfi eða hvernig fótbolta van Gaal sé að reyna spila. Van Gaal hefur sjálfur sagt að hann ætli að spila einhverskonar demantsútgáfa af 4-4-2 þar sem Ribery á að lóna fyrir aftan sóknamennina. Það litla sem Ribery hefur spilað, en hann hefur verið meiddur, hefur hefur sýnt að hann er algjörlega grunlaus um hvaða hlutverki hann á að gegna. Þegar hann hefur spilað þá er hann fljótlega kominn út á sinn heitt elskaða vinstri kant og demanturinn hans van Gaal kominn í hakk.
Kaupin í gær á Arjen Robben gefa til kynna að Hoeneß hafi verið farinn að ókyrrast og ekki litist á blikuna. Ekki verður annað séð en að demantsleikkerfi van Gaal verði hent á haugana því Karl-Heinz Rummenigge hefur gefið það út að Ribery og Robben muni spila á sitthvorum kantinum.
Eftir þrjár umferðir hafa Bæjarar gert tvö jafntefli og tapað einum leik. Þeir máttu teljast heppnir að ná jafntefli heima á móti Werder Bremen og úti á móti Hoffenheim. Svo kom tapið hrikalega um síðustu helgi er fallkandítarnir í Mainz sigruðu þá 2-1. Leikurinn í kvöld má því ekki tapast.
Wolfsburg komu kokhraustir til leiktíðar þrátt fyrir að missa þjálfarann Felix Magath til Schalke, en það var ákveðið áður en Magath óraði fyrir því að Wolfsburg yrðu meistarar. Sumarið var Wolfsburg afar gott á leikmannamarkaðnum. AC Milan reyndu hvað þeir gátu að kaupa bosníska sóknarmanninn Edin Dzeko en Þjóðverjarnir skelltu símanum á ítrekað á Mælendinga, nokkuð sem gefur til kynna að valdahlutföll fótboltans sé að breytast, Búndeslígunni í vil. Að halda í Dzeko og kaup Wolfsburg á Obafemi Martins sýna hvað styrkur þýska boltans er að aukast.
Wolfsburg voru sannfærandi í fyrstu tveimur umferðunum, 2-0 heimasigur á móti Stuttgart og 3-1 útisigur á Köln. Burðarásar liðsins, Josue, Misimovic og sóknaparið ógurlega, Grafite og Dzeko virtust vera í sama ógnarstuðinu og í fyrra. En svo hrundi allt saman í þriðju umferð þegar fyrnasterkt lið Hamburgar lék sér að því að sigra Wolfsburg 4-2 á Volkswagen Arena.
Í kvöld þurfa leikmenn Wolfsburg að sanna að ófarirnar á móti Hamburg hafi verið slys og til þess þurfa þeir ekki endilega að sigra, jafntefli og nokkuð góð spilamennska mun að nægja. Bæjarar eru hinsvegar í örvæntingarfullri leit að stigum. Sigur er það eina sem skiptir máli. Franz Beckenbauer, sem gladdist ógurlega þegar Jupp Heynckes fór að hala inn óverðskulduðum 1-0 sigrum í vor, hefur sagt að spilamennskan í kvöld skipti engu máli. Bara þrjú stigin.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment