Sunday, August 30, 2009

Robbery!

„Í dag byrjaði deildin loksins hjá okkur. Nú setjum við í allt botn“, sagði Karl-Heinz Rummenigge eftir góðan 3-0 sigur Bayern Munchen á Wolfsburg í gær. Meistararnir byrjuðu leikinn nokkuð vel en um miðjan fyrri hálfleik kom Mario Gomez Bæjurum yfir. Miklar breytingar voru á liði Bayern. Michael Rensing og Mark van Bommel voru settir á bekkinn og í stað þeirra komu inn í liðið Anatoliy Tymoshchuk og gamla brýnið Hans-Jörg Butt. Báðir áttu mjög góðan leik.




Meistararnir frá Wolfsburg virkuðu dasaðir og eins og þeir hefðu ekki trú á að sigra mjög einbeitt lið Bæjara sem hlýddu kalli Keisarans, en Franz Beckenbauer hafði gefið út þá skipun að leikinn þyrfti að sigra með öllum ráðum. Spilamennskan skipti engu máli.

Ekki einu sinni Beckenbauer getur neitað því að spilamennskan sem liðið sýndi í seinni hálfleik, eftir að Arjen Robben kom inn í sínum fyrsta leik, skiptir máli. Bæjarar voru einfaldlega sjóðheitir. Og eftir að Franck Ribery var skipt inn á, en hann hefur verið meiddur, þá sprungu Bæjarar út. Strax frá fyrstu mínútu náðu Robben og Ribery vel saman og þegar flautað hafði verið til leiksloka hafði Robben skorað tvö mörk, bæði eftir sendingu frá Ribery. Robbery segja þeir í Bæjaralandi.

Fyrra mark Robben var sérlega glæsilegt. Úkraínski fanturinn Tymoshchuk vinnur boltann í tæklingu, tæklingu sem hann fór í af gíðarlegri greddu, tækling þar sem millimeter skilur milli snilldar og fótbrots. Boltinn berst til Ribery sem sendir á Robben, sem tekst að forðast allar árásir varnarmanna Wolfsburg og nær góðu skoti fyrir innan teig sem með smáviðkomu í varnarmanni fer í fjærhornið.

Wolfsburg hafði reyndar verið oftar en einu sinni nálægt að jafna og Butt varði á tíðum glæsilega. Allt kom fyrir ekki og þegar tíu mínútur voru eftir náðu Bæjarar skyndisókn og aftur gaf Ribery á Robben sem lék á varnarmenn og kláraði færið vel.

Góður leikur hjá Bayern sem sýndi sitt „rétta andlit“ eins og Butt orðaði það. Fyrir utan Ribery og Robben, sem fylla myndasíður allra þýskra dagblaða í dag, þá spiluðu bæði Tymoshchuk og Altintop mjög vel. Sannarlega aukin bjartsýni í Munchen.

Leverkusen sigraði í gær Bochum 2-1 og eru á toppi deildarinnar með 10 stig en Hamburg getur náð Leverkusen með sigri á Köln í dag og Bayern er í fimmta sæti.

No comments:

Post a Comment