Monday, September 21, 2009

Vesen

Síðustu daga hafa tæknileg vandræði hamlað eðlilegri uppfærslu síðunnar. Það er harmað.

Tekið verður á málunum af krafti fljótlega.

Friday, September 11, 2009

Fimmta umferðin

Fimmta umferðin nálgast og hver stórleikurinn á fætur öðrum handan við hornið. Í Búndeslígunni tejast stórleikir varla til frétta. Deildin er einfaldlega þannig að nærri hver einasti leikur er stórleikur. Jafnræðið með liðunum mikið og engin leið að spá um úrslit leikja eða sætaskipan þann 8. maí 2010. Helstu kræsingarnar sem verður boðið upp á um helgina eru:

Borussia Dortmund vs Bayern Munchen

Dortmund er mun betra lið en það hefur verið undanfarin ár. Þeir sýndu það á síðasta tímabili. Undir handleiðslu hins unga Jürgen Klopp náðu þeir ótrúlegu formi um mitt tímabil í fyrra. Miklar vonir eru bundnar við argentínska framherjann Lucas Barrios sem keyptur var í sumar. Bæjarar koma til leiks fullir sjálfstrausts eftir slátrunina á Wolfsburg og þátt Robben og Ribery í henni. Mikið mun velta á því hvort van Gaal tefli fram Miroslav Klose eða Mario Gomez. Eftir að Klose var skipt inn á móti Wolfsburg breyttist leikur liðsins til hins betra og svo sýndi hann í vikunni með þýska landsliðinu að hann er í miklu stuði.

Wolfsburg vs Bayer Leverkusen

Nú er að duga eða drepast hjá Wolfsburg. Tveir tapleikir í röð. Fyrirliðinn Josue er enn frá vegna meiðsla. Meistaradeildin hefst í næstu viku og fær Wolfsburg CSKA Moskvu í heimsókn á þriðjudaginn. Það breytir því ekki að þeir mega ekkert draga af sér, þennan leik verður að sigra og Dzeko og Grafite verða að hrökkva í gang. Leverkusen eru með mjög sprækt lið sem gamli refurinn Jupp Heynckes stýrir. Taplausir í deildinni og deila toppsætinu með Hamburg.

Hamburg vs Stuttgart

Hamburg urðu fyrir áfalli í vikunni. Framherjinn Paolo Guerrero reif krossbönd í leik með landsliði Perú. Guerrero hefur verið í miklu stuði og skorað fjögur mörk í fjórum leikjum. Hinn rándýri Svíi, Marcus Berg, kemur líklega inn í liðið fyrir hann. Bruno Labbadia og hans menn eygja þann möguleika að sigri þeir og tapi Leverkusen, sitji þeir einir á toppnum. Kuzmanovic og Hleb munu líklega byrja leikinn fyrir Stuttgart.

Wednesday, September 9, 2009

Að gera Stutgart

Að gera Stuttgart er orðinn frasi í þýsku knattspyrnunni. Er þá átt við meistaratitil Stuttgart fyrir tveimur árum. Wolfsburg gerði til að mynda Stuttgart á síðasta tímabili.

Ekki nokkrum manni datt í hug síðsumars 2006 að VFB Stuttgart stæðu uppi sem deildarmeistarar í lok vertíðar. Að vanda var Bæjurum spáð sigri í deildinni en þetta tímabil var það versta í samtímasögu Bayern. Uli Hoeness rak Felix Magath í janúar og hóaði í sinn gamla vin Ottmar Hitzfeld til að bjarga því sem bjargað varð. En vandræði Bayern voru meiri en svo að Hitzfeld gæti reddað þeim og liðið hafnaði í fjórða sæti og komst ekki í meistaradeildina.

Þegar Bayern hikstar skapast rúm fyrir önnur lið en lengi vel leit út fyrir að Schalke tækist að hagnast á ruglinu í Bæjaralandi. Það var ekki fyrr en í næstsíðustu umferð að Stuttgart náði að taka fram úr Schalke og tryggði svo titilinn í lokaumferðinni. Ég held að það megi fullyrða að lélegri mannskapur hafi ekki unnið svo stóran titil í knattspyrnu í háa herrans tíð. Með því er því ekki haldið fram að liðið hafi verið skipað eintómum aulum. En þetta tímabil komu fram á sjónarsviðið ungir uppaldir leikmenn eins og Mario Gomez, Serdar Tasci og Samir Khedira. Þeir hafa nú allir spilað leiki með þýska landsliðinu.

Titillinn þótti fyrst og fremst vera rós í hnappagat þjálfarans Armin Veh. Hann þótti hafa náð að kreista allt út úr mannskapnum og gott betur. Því voru ekki gerðar miklar væntingar til næsta tímabils. Í meistardeildinni það ár átti Stuttgart aldrei möguleika eftir að hafa lent í riðli með Lyon, Barcelona og Rangers en gengið í deildinni var heldur slakt og hafnaði Stuttgart í sjötta sæti. Það var svo í fyrrahaust sem allt sprakk í andlit Armin Veh og hann rekinn eftir hrikalega byrjun í deildinni.

Þjálfaralausir leituðu stjórnendur Stuttgart til Markus Babbel til að taka að sér þjálfarastöðuna. Babbel lauk glæsilegum ferli sínum hjá Stuttgart árið 2007 og var þá strax ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins. Ráðning Babbel var mikið gæfuspor og blandaði Stuttgart sér í titilbaráttuna í fyrra, eins og reyndar ein sex lið. Að endingu varð Babbel að láta sér þriðja sætið duga, sem var sannast sagna glæsilegur árangur. Frægðarsól Mario Gomez reis enn hærra og eftir að hafa skorað 24 mörk í deildinni var augljóst að hann yrði seldur. Hvert og verðmiðinn var spurningin. Varð úr að hann fór til Bayern fyrir 30 milljónir evra og er dýrasti leikmaður í sögu þýska boltans.

Með allar kistur fullar af evrum frá Bæjaralandi þurfti að styrkja liðið. Rússneski landsliðsmaðurinn Pavel Pogrebnyak var keyptur frá Zenith í Pétursborg fyrir brot af Gomezar-gullinu. Pogrebnyak er stór og mikill framherji og sagt að með hann í liðinu muni Stuttgart ekki sakna gulldrengsins Gomez mikið. Eins og sjá má á myndinni þá eiga hárgelssalar og brúnku- og strípugerðarmenn Stuttgart ekki von á miklum bissness við komu Pogrebnyak. No-nonsense leikmaður!

Mesta athygli vakti endurkoma Aliaksandr Hleb sem kom á lánssamningi frá Barcelona. Flinkari leikmaður hefur ekki verið hjá Stuttgart allt frá því Ásgeir Sigurvinsson og Krassimir Balakov léku listir sínar við árbakka Neckar. Hleb mun styrkja liðið meira en nokkurn grunar. Eftir fimm ár hjá Stuttgart í byrjun aldarinnar er hann öllum hnútum kunnugur hjá liðinu og þekkir þýsku deildina út og inn. Það sem vekur aftur á móti áhyggjur eru yfirlýsingar Hleb í fjölmiðlum um að hann sé að taka skref aftur á bak við að koma til Stuttgart. Efnislega kannski alveg rétt, en svona segir maður ekki.

Stuttgart á sinn Uli Hoeness í Horst Heldt sem er fyrrum leikmaður Stuttgart en situr núna við skrifborðið og tekur veigamiklar ákvarðanir. Mikið lengra nær samlíkingin ekki að sinni, en Heldt er ungur og nær kannski, ef allar heimsins heilladísir brosa til hans, að komast með tærnar þar sem Hoeness hefur hælana.

Til dæmis er ég ekki viss um að Hoeness hefði tekið því þegjandi þegar markvörður Stuttgart, hinn sísturlaði Jens Lehmann, kvartaði opinberlega yfir nísku Heldt, einungis nokkrum milljónum af peningunum sem fengust fyrir Gomez hefði verið eytt. Heldt lét undan og keypti serbneska miðjumanninn Zdravko Kuzmanovic frá Fiorentina. Kuzmanovic er einungis 21 árs og sagður vera efni í mikinn knattspyrnumann.

Aðrir leikmenn Stuttgart sem vert er að nefna eru hollenska mannætan Khalid Boulahrouz, fyrirliðinn Thomas Hitzlsperger, litli galdramaðurinn Yıldıray Baştürk og hinn ungi varnarmaður Christian Träsch.

Eftir fjórar umferðir vermir Stuttgart níunda sætið og hefur unnið einn leik, gert jafntefli í tveimur og tapað einum. Ekkert til að hrópa húrra fyrir en taka verður mið að því að tapleikurinn var á útivelli á móti meisturunum í Wolfsburg, eitt jafntefli var gert við Dortmund, einnig á útivelli. Markalaust jafntefli á heimavelli gegn Nurnberg er aftur á móti nokkuð sem Babbel þarf að útskýra.

Stuttgart komst nokkuð auðveldlega í gegnum undankeppni Meistaradeildarinnar með því að slá út Timisoara samanlagt 2-0. Riðillinn sem Stuttgart dróst í er ólíkt árennilegri en síðast þegar þeir tóku þátt í keppninni. Aftur mæta þeir Rangers og önnur lið eru Sevilla og Uniera Urziceni frá Rúmeníu.

Um helgina tekur við enn einn erfiður útileikur. Að þessu sinni við Hamburg sem sitja á toppi deildarinnar og hafa spilað besta boltann það sem af er deild. Hvað forsvarsmönnum Búndeslígunnar gekk til með því að láta Stuttgart spila þrjá erfiða útileiki í fyrstu fimm umferðunum, er erfitt að segja. En augljóst er að þeir dagar eru liðnir að Gerhard Mayer-Vorfelder, fyrrum forseti VfB Stuttgart og Þýska knattspyrnusambandsins, gat kippt í strengi.

Friday, September 4, 2009

Werder Bremen - helsti keppinautur Bayern

Að venju verða flest augu á Bayern Munchen þetta tímabil. Svo hefur það verið og svo mun það verða. En það sem þýski boltinn hefur fram yfir hinar stóru deildirnar í Evrópu (ensku, spænsku, ítölsku og frönsku deildirnar), er að svo mörg lið geta unnið skjöldinn. Einokun á titlunum og hinum gróðavænlegum meistaradeildarsætum er ekki í boði. Bæjarar verða jú að teljast mjög sigurstranglegir en ekki langt fyrir aftan þá koma Hamburg, Wolfsburg, Stuttgart og Werder Bremen. Bayer Leverkusen og Dortmund eru heldur ekkert slor og verða örugglega í baráttu um meistaradeildarsæti, jafnvel um sjálfan skjöldinn. Um gengi Herthu og Schalke er erfiðara að spá.



Hertha, sem kom öllum á óvart í fyrra og barðist um titilinn til síðasta blóðdropa, þvert á allar spár spekinga, hefur byrjað tímabilið mjög illa og er einungis með þrjú stig eftir fjórar umferðir. Eilífðarlúserarnir í Schalke hafa með Magath-legu hjakki náð að hala inn sjö stigum í jafnmörgum umferðum. Í liðum Schalke og Herthu eru einfaldlega ekki leikmenn í þeim klassa sem þarf til að keppa um hæstu orðu þýskrar knattspyrnu. En að því sögðu, þá má ekki gleyma að liðin eru þjálfuð af þeim Felix Magath og Lucien Favre, báðir þekktir fyrir mjög skipulagðan leik og mikinn aga, klæðskerasaumaður stíll fyrir lið skipuð óæðri leikmönnum.

En þessi pistill átti ekki að vera um Schalke og Herthu heldur Werder Bremen.

Thomas Schaaf er að hefja sitt 10. tímabil sem þjálfari Werder Bremen. Schaaf er hálfgert fyrirbæri í knattspyrnuheiminum en hann hefur verið innan raða Bremen síðan hann var 11 ára, eða frá árinu 1972. Hann spilaði með öllum barna- og unglingaflokkum liðsins áður en hann komst í aðalliðið þar sem hann spilaði tæplega þrjú hundruð deildarleiki fyrir liðið. Þjálfunarferillinn var með svipuðu móti. Hann byrjaði með unglingaliðið og klifraði hægt og rólega upp metorðastigann. Í dag er hann sá þjálfari í deildinni sem hefur lengst haldið sama starfi og er einn sá virtasti.

En tímabilið í fyrra var æði skrautlegt hjá Bremen og Schaaf áreiðanlega með óbragð í munninum þegar hann hugsar um þennan skitsófreníska vetur

Í áraraðir, jafnvel í áratugi, hefur ekki nokkur leikmaður Bremen sýnt jafngóða takta og Diego sýndi í fyrra. Hann var hreint út sagt stórkostlegur, skoraði 20 mörk í 28 deildarleikjum og lagði upp dobíu af mörkum. Þrátt fyrir heimsklassa spilamennsku Diego hafnaði liðið í tíunda sæti í. Slökum varnarleik var helst um að kenna.

Að komast í úrslit UEFA bikarsins voru kannski sárabætur þrátt fyrir tap á móti Shakhtar Donetsk og sigur Bremen á Leverkusen í þýska bikarnum fékk Schaaf til að brosa, nokkuð sem gerist afar sjaldan.

En nú er Diego farinn til Juventus fyrir stóra upphæð (eini stóri leikmaðurinn sem yfirgaf deildina í sumar, straumurinn hefur verið í hina áttina) og eins góður og hann var fyrir Bremen, er engin ástæða til að örvænta.

Thomas Schaaf hefur eflaust vitað að Bremen kæmist yfir brotthvarf Diego nokkuð léttilega, svo sterkur er leikmannahópurinn og þeir leikmenn sem bættust við í sumar gera gott lið ennþá betra.

Tvær björtustu vonir þýska landsliðsins eru á mála hjá Bremen, þeir Mesut Özil og Marko Marin. Özil sýndi í fyrra að hann getur vel tekið við hlutverki Diego sem Spielmacher og Marin, hinn þýski Messi, er öskufljótur útherji sem kom frá Mönchengladbach í sumar. Joachim Löv hefur kallað þá báða í landsliðið og verða þeir án efa í hópnum á HM næsta sumar.

Schaaf tók Tim Borowski aftur opnum örmum, en hann fann sig ekki hjá Bayern þetta eina tímabil og er kominn aftur heim.

Athyglisverður leikmaður sem Schaaf fékk í sumar er Bólivíumaðurinn Marcelo Moreno sem kom á árs lánssamningi frá Shakhtar Donetsk. Áður en hann fluttist til Úkraínu, þar sem hann floppaði illilega, skoraði hann eins og óður maður í Bólivíu og Brasilíu og hefur skorað reglulega fyrir landsliðið.

Þá er ótalinn Claudio Pizzaro sem ákvað í sumar að skrifa undir langtímasamning við Bremen eftir að hafa verið á láni frá Chelsea í fyrra. Pizzaro sýndi það rækilega á síðasta tímabili að hann er framherji í háum gæðaflokko með því að skora 28 mörk í 47 leikjum.

Aðrir lykilmenn Bremen eru miðverðirnir Per Mertesacker og Naldo, báðir mjög öflugir. Á miðjunni ræður ríkjum Thorsten Frings, fyrirliði og lungu liðsins. Á myndinni hér til vinstri sýnir Frings að þrátt fyrir ómennsku sína á vellinum, þá er hann hið besta skinn, sérstaklega við málleysingjana, sem er jú hinn endanlegi mælikvarði. Milli stanganna stendur sem fyrr Tim Wiese, sem getur á sama kortérinu sýnt að hann er besti og versti markvörður deildarinnar.

Vafalaust hefur Schaaf haldið að síðasta tímabili væri ekki lokið þegar Bremen, strax í fyrsta leik tímabilsins, tapaði heima gegn fallkandídötunum í Eintracht Frankfurt. Eins niðurlægjandi og það var, þá náði Bremen strax í næsta leik með samblandi af öflugum varnarleik (vörnin var Akkilesarhæll Bremen í fyrra) og skelfilegum leik Bæjara 1-1 jafntefli í Munchen. Í þriðju umferð fékk Bremen Mönchengladbach í heimsókn og slátruðu þeim með þremur mörkum gegn engu. Um síðustu helgi var komið að öðrum erfiðum útileik á móti Herthu. Ólympíleikvangurinn í Berlín var eitt mesta virki deildarinnar í fyrra þar sem Hertha marði hvern sigurinn á fætur öðrum. Bremen náði hinsvegar að sigra Prússana 3-2 eftir að hafa komist í 2-0. Enn er vörnin grunsamleg. Liðið er sem stendur í 3. sæti með sjö stig, þremur á eftir Wolfsburg og Leverkusen.

Eins og ráð var fyrir gert hefur Özil verið allt í öllu og skorað þrjú mörk í leikjunum fjórum.

Í næstu umferð fá þeir grannana í Hannover í heimsókn sem verður að bókast fyrirfram sem sigur og þvínæst á Bremen erfiðan útileik við Leverkusen.

Það er spádómur síðunnar að helsti keppinautur Bæjara um skjöldinn verði Werder Bremen og það sem af er tímabili, virðist sá spádómur geta gengið eftir.

Áður var þess getið að fleiri lið gætu blandað sér í toppbaráttuna og af þeim eru Sváfarnir í Stuttgart ansi líklegir til afreka. Mun næsti pistill fjalla um VFB Stuttgart.