Að gera Stuttgart er orðinn frasi í þýsku knattspyrnunni. Er þá átt við meistaratitil Stuttgart fyrir tveimur árum. Wolfsburg gerði til að mynda Stuttgart á síðasta tímabili.
Ekki nokkrum manni datt í hug síðsumars 2006 að VFB Stuttgart stæðu uppi sem deildarmeistarar í lok vertíðar. Að vanda var Bæjurum spáð sigri í deildinni en þetta tímabil var það versta í samtímasögu Bayern. Uli Hoeness rak Felix Magath í janúar og hóaði í sinn gamla vin Ottmar Hitzfeld til að bjarga því sem bjargað varð. En vandræði Bayern voru meiri en svo að Hitzfeld gæti reddað þeim og liðið hafnaði í fjórða sæti og komst ekki í meistaradeildina.
Þegar Bayern hikstar skapast rúm fyrir önnur lið en lengi vel leit út fyrir að Schalke tækist að hagnast á ruglinu í Bæjaralandi. Það var ekki fyrr en í næstsíðustu umferð að Stuttgart náði að taka fram úr Schalke og tryggði svo titilinn í lokaumferðinni. Ég held að það megi fullyrða að lélegri mannskapur hafi ekki unnið svo stóran titil í knattspyrnu í háa herrans tíð. Með því er því ekki haldið fram að liðið hafi verið skipað eintómum aulum. En þetta tímabil komu fram á sjónarsviðið ungir uppaldir leikmenn eins og Mario Gomez, Serdar Tasci og Samir Khedira. Þeir hafa nú allir spilað leiki með þýska landsliðinu.
Titillinn þótti fyrst og fremst vera rós í hnappagat þjálfarans Armin Veh. Hann þótti hafa náð að kreista allt út úr mannskapnum og gott betur. Því voru ekki gerðar miklar væntingar til næsta tímabils. Í meistardeildinni það ár átti Stuttgart aldrei möguleika eftir að hafa lent í riðli með Lyon, Barcelona og Rangers en gengið í deildinni var heldur slakt og hafnaði Stuttgart í sjötta sæti. Það var svo í fyrrahaust sem allt sprakk í andlit Armin Veh og hann rekinn eftir hrikalega byrjun í deildinni.
Þjálfaralausir leituðu stjórnendur Stuttgart til Markus Babbel til að taka að sér þjálfarastöðuna. Babbel lauk glæsilegum ferli sínum hjá Stuttgart árið 2007 og var þá strax ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins. Ráðning Babbel var mikið gæfuspor og blandaði Stuttgart sér í titilbaráttuna í fyrra, eins og reyndar ein sex lið. Að endingu varð Babbel að láta sér þriðja sætið duga, sem var sannast sagna glæsilegur árangur. Frægðarsól Mario Gomez reis enn hærra og eftir að hafa skorað 24 mörk í deildinni var augljóst að hann yrði seldur. Hvert og verðmiðinn var spurningin. Varð úr að hann fór til Bayern fyrir 30 milljónir evra og er dýrasti leikmaður í sögu þýska boltans.
Með allar kistur fullar af evrum frá Bæjaralandi þurfti að styrkja liðið. Rússneski landsliðsmaðurinn Pavel Pogrebnyak var keyptur frá Zenith í Pétursborg fyrir brot af Gomezar-gullinu. Pogrebnyak er stór og mikill framherji og sagt að með hann í liðinu muni Stuttgart ekki sakna gulldrengsins Gomez mikið. Eins og sjá má á myndinni þá eiga hárgelssalar og brúnku- og strípugerðarmenn Stuttgart ekki von á miklum bissness við komu Pogrebnyak. No-nonsense leikmaður!
Mesta athygli vakti endurkoma Aliaksandr Hleb sem kom á lánssamningi frá Barcelona. Flinkari leikmaður hefur ekki verið hjá Stuttgart allt frá því Ásgeir Sigurvinsson og Krassimir Balakov léku listir sínar við árbakka Neckar. Hleb mun styrkja liðið meira en nokkurn grunar. Eftir fimm ár hjá Stuttgart í byrjun aldarinnar er hann öllum hnútum kunnugur hjá liðinu og þekkir þýsku deildina út og inn. Það sem vekur aftur á móti áhyggjur eru yfirlýsingar Hleb í fjölmiðlum um að hann sé að taka skref aftur á bak við að koma til Stuttgart. Efnislega kannski alveg rétt, en svona segir maður ekki.
Stuttgart á sinn Uli Hoeness í Horst Heldt sem er fyrrum leikmaður Stuttgart en situr núna við skrifborðið og tekur veigamiklar ákvarðanir. Mikið lengra nær samlíkingin ekki að sinni, en Heldt er ungur og nær kannski, ef allar heimsins heilladísir brosa til hans, að komast með tærnar þar sem Hoeness hefur hælana.
Til dæmis er ég ekki viss um að Hoeness hefði tekið því þegjandi þegar markvörður Stuttgart, hinn sísturlaði Jens Lehmann, kvartaði opinberlega yfir nísku Heldt, einungis nokkrum milljónum af peningunum sem fengust fyrir Gomez hefði verið eytt. Heldt lét undan og keypti serbneska miðjumanninn Zdravko Kuzmanovic frá Fiorentina. Kuzmanovic er einungis 21 árs og sagður vera efni í mikinn knattspyrnumann.
Aðrir leikmenn Stuttgart sem vert er að nefna eru hollenska mannætan Khalid Boulahrouz, fyrirliðinn Thomas Hitzlsperger, litli galdramaðurinn Yıldıray Baştürk og hinn ungi varnarmaður Christian Träsch.
Eftir fjórar umferðir vermir Stuttgart níunda sætið og hefur unnið einn leik, gert jafntefli í tveimur og tapað einum. Ekkert til að hrópa húrra fyrir en taka verður mið að því að tapleikurinn var á útivelli á móti meisturunum í Wolfsburg, eitt jafntefli var gert við Dortmund, einnig á útivelli. Markalaust jafntefli á heimavelli gegn Nurnberg er aftur á móti nokkuð sem Babbel þarf að útskýra.
Stuttgart komst nokkuð auðveldlega í gegnum undankeppni Meistaradeildarinnar með því að slá út Timisoara samanlagt 2-0. Riðillinn sem Stuttgart dróst í er ólíkt árennilegri en síðast þegar þeir tóku þátt í keppninni. Aftur mæta þeir Rangers og önnur lið eru Sevilla og Uniera Urziceni frá Rúmeníu.
Um helgina tekur við enn einn erfiður útileikur. Að þessu sinni við Hamburg sem sitja á toppi deildarinnar og hafa spilað besta boltann það sem af er deild. Hvað forsvarsmönnum Búndeslígunnar gekk til með því að láta Stuttgart spila þrjá erfiða útileiki í fyrstu fimm umferðunum, er erfitt að segja. En augljóst er að þeir dagar eru liðnir að Gerhard Mayer-Vorfelder, fyrrum forseti VfB Stuttgart og Þýska knattspyrnusambandsins, gat kippt í strengi.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Ég þakka en og aftur fyrir fróðlegan og góðan pistill. Þetta blogg lyftir bloggheimum yfir á æðri veröld.
ReplyDeletePavel Pogrebnyak á eftir að gera góða hluti í Bundesligunni. Fór til að mynda illa með Bæjara hérna um árið.
Kveðja Tarfurinn