Friday, September 11, 2009

Fimmta umferðin

Fimmta umferðin nálgast og hver stórleikurinn á fætur öðrum handan við hornið. Í Búndeslígunni tejast stórleikir varla til frétta. Deildin er einfaldlega þannig að nærri hver einasti leikur er stórleikur. Jafnræðið með liðunum mikið og engin leið að spá um úrslit leikja eða sætaskipan þann 8. maí 2010. Helstu kræsingarnar sem verður boðið upp á um helgina eru:

Borussia Dortmund vs Bayern Munchen

Dortmund er mun betra lið en það hefur verið undanfarin ár. Þeir sýndu það á síðasta tímabili. Undir handleiðslu hins unga Jürgen Klopp náðu þeir ótrúlegu formi um mitt tímabil í fyrra. Miklar vonir eru bundnar við argentínska framherjann Lucas Barrios sem keyptur var í sumar. Bæjarar koma til leiks fullir sjálfstrausts eftir slátrunina á Wolfsburg og þátt Robben og Ribery í henni. Mikið mun velta á því hvort van Gaal tefli fram Miroslav Klose eða Mario Gomez. Eftir að Klose var skipt inn á móti Wolfsburg breyttist leikur liðsins til hins betra og svo sýndi hann í vikunni með þýska landsliðinu að hann er í miklu stuði.

Wolfsburg vs Bayer Leverkusen

Nú er að duga eða drepast hjá Wolfsburg. Tveir tapleikir í röð. Fyrirliðinn Josue er enn frá vegna meiðsla. Meistaradeildin hefst í næstu viku og fær Wolfsburg CSKA Moskvu í heimsókn á þriðjudaginn. Það breytir því ekki að þeir mega ekkert draga af sér, þennan leik verður að sigra og Dzeko og Grafite verða að hrökkva í gang. Leverkusen eru með mjög sprækt lið sem gamli refurinn Jupp Heynckes stýrir. Taplausir í deildinni og deila toppsætinu með Hamburg.

Hamburg vs Stuttgart

Hamburg urðu fyrir áfalli í vikunni. Framherjinn Paolo Guerrero reif krossbönd í leik með landsliði Perú. Guerrero hefur verið í miklu stuði og skorað fjögur mörk í fjórum leikjum. Hinn rándýri Svíi, Marcus Berg, kemur líklega inn í liðið fyrir hann. Bruno Labbadia og hans menn eygja þann möguleika að sigri þeir og tapi Leverkusen, sitji þeir einir á toppnum. Kuzmanovic og Hleb munu líklega byrja leikinn fyrir Stuttgart.

3 comments:

  1. Yndislegt
    Mínir menn slátruðu Dortmund... Múller með tvö stk. Maður fær nú bara gæsahúð að sjá þetta nafn tengt aftur við mörk.

    Kveðja Tarfurinn

    ReplyDelete
  2. Virkilega skemmtilegt blogg hjá þér Smári.
    Væri hægt að panta blogfærslu um Sammerin og jafnvel stórliðið Dortmund? Sammerinn var minn maður í þýska boltanum en hann greyið þurfti að hætta langt fyrir aldur fram.

    ReplyDelete
  3. Heitasta helvíti nú voru mínir menn að tapa fyrir Köln á heimavelli....... Hver er ástæðan minn kæri Smári? Ég skil ekki hvernig það er hægt.........

    kv. Pmagg

    ReplyDelete